Leikhópurinn úr Feigð (2016) eftir Ármann Guðmundsson.
Myndin sýnir rautt á hvítu hve erfitt getur verið að taka þátt í að setja upp leiksýningu. Svo var líka niðursetningur.

Upphafið…

Í annálum félagsins er að finna sagnir um að í VW bjöllu hafi verið rætt um að stofna Leikfélag Íslands, hvorki meira né minna. Enda hafa flestar bestu hugmyndir seinni tíma fæðst á rúntinum.

Í febrúar 1984 var fyrsti fundur Hugleiks haldinn í útibúi Borgarbókasafnsins í Bústaðarkirkju. Þangað mættu um 20 manns, flest þeirra sjúkraþjálfarar og félagsráðgjafar. Fyrsta frumsýning félagsins var 14. apríl 1984 og hefur Hugleikur ekki linnt látum síðan.

Fjórir af stofnendum Hugleiks á sýningunni Húsfélagið vorið 2023.

Myndir úr Bónorðsförinni sem var frumsýnd 14.apríl 1984. Sá dagur hefur síðan verið haldinn hátíðlegur ár hvert sem afmælisdagur félagsins.

Þjóðsöngur Hugleiks

Þegar ég finn af þessu bragð
þá fer mér að hlýna,
eins og þú legðir ullarlagð
ofan á sálu mína.

Situr einn og segir frá,
sveitist við að ljúga.
Annar hlustar hrifinn á
og hamast við að trúa.

Sitja þar við sama borð
sex, og enginn lýgur.
Skemmtilegt og skrýtið orð
er Skólavörðustígur.

Lag: Björgvin Guðmundsson
Texti: Freysteinn Gunnarsson

Stiklað á afskaplega stóru…

Nafnið

„Svo voru þau einhvern tímann heima hjá Sigrúnu Óskars að ákveða nafnið á leikfélaginu þegar Hugleikur Dagsson, þá sirka 2ja ára, hljóp yfir stofugólfið og Ingibjörg Hjartar segir: Ekki vera með læti Hugleikur minn!
Þá var ekki aftur snúið, fundarmenn litu hver á annan og sögðu einum rómi:

Auðvitað heitir félagið Hugleikur!

Afrek og mont

Árið 2010 var söngleikurinn Rokk valin athyglisverðasta áhugaleiksýningin og sýnd tvisvar í Kassanum í Þjóðleikhúsinu. Höfundar voru Ásta Gísladóttir, Júlía Hannam, Sigurður H. Pálsson og Þórarinn Stefánsson. Höfundur tónlistar var Eggert Hilmarsson og samdi hann einnig söngtexta ásamt höfundahópinum.

Leikstjórar voru Þorgeir Tryggvason og Hulda Hákonardóttir.

Á þrítugasta afmælisári Hugleiks var söngleikurinn Stund milli stríða eftir Þórunni Guðmundsdóttur settur upp í Tjarnarbíói í leikstjórn Jóns St.Kristjánssonar. Sú sýning var valin athyglisverðasta áhugaleiksýningin leikárið 2013-14 og sýnd í Þjóðleikhúsinu vorið 2014.

Þórunn (eða doktor Tóta), sem hefur verið virkur félagi í Hugleik frá árinu 1997, skrifaði síðar framhald af Stund milli stríða. Framhaldsverkið hét Gestagangur og var sett upp vorið 2019. Sem kennari í MÍT hefur Þórunn einnig sett upp nokkrar óperur í samstarfi við Hugleik.

Smá bilun…

Hugleikur hefur byggt upp mikið gagnasafn um starfsemi félagsins. Sá fróðleiksbrunnur glímir sem stendur við tæknilega drauga – en særingamenn eru að störfum við að kveða þá niður.