Leikfélagið Hugleikur var stofnað 1984 og fagnar 40 ára afmæli vorið 2024. Hugleikur er langlífasta og öflugasta starfandi áhugaleikfélag í Reykjavík, en á fjórum áratugum hefur félagið sett upp hátt í 50 leiksýningar í fullri lengd auk um 200 styttri verka sem ratað hafa á svið.

Á dæmigerðu leikári setur Hugleikur upp 1-2 leikrit í fullri lengd. Yfirleitt eru einnig sýndar nokkrar stuttverkadagskrár með verkum eftir höfunda félagsins. Þá heldur Hugleikur námskeið fyrir sína félagsmenn og aðra áhugasama þar sem kennarar koma úr ýmsum áttum og námskeiðin eru allt frá einni kvöldstund upp í nokkrar vikur.

Viltu vera með?

Nýliðar alltaf velkomnir

Fyrsta skrefið fyrir öll sem eru áhugasöm um starf Hugleiks er að setja sig í samband við félagið, til dæmis með því að senda póst á netfang félagsins (hugleikur@hugleikur.is) og biðja um að láta bæta sér í Facebook hóp Hugleikara og/eða á póstlista félagsins. Þannig er hægt að fylgjast betur með starfinu, fá tilkynningar um samlestra, námskeið eða aðra viðburði sem félagið heldur. Þú mátt gjarnan láta fylgja með hvort þú hafir áhuga á einhverju sérstöku í starfi félagsins.

Það að láta sjá sig á samlestri er oft fyrsta skref nýrra félaga í því að taka þátt í starfinu og er alveg án skuldbindinga – það má alveg mæta á samlestur fyrir leikrit án þess að ætla sér á svið! 

Nú, svo getið þið líka fylgt okkur á Fésbókarsíðunni Leikfélagið Hugleikur!

Leikárið 2023-2024

Hafa samband

Formaður Hugleiks er Sesselja Traustadóttir og gjaldkeri er Margrét Þorvaldsdóttir.

Sendu okkur póst á hugleikur@hugleikur.is til að láta bæta þér á póstlista og fá tilkynningar um hvað er á döfinni.

Bréfpóst ætlaðan Hugleik ætti að stíla á Hjálmholt 12, 105 Reykjavík (en helst viljum við nota tölvupóst).

Félagið hefur aðsetur að Langholtsvegi 109-111 sem það nýtir til æfinga og félagsstarfs. Gengið er inn í portinu baka til. 

Eitt af aðalsmerkjum Hugleiks er áherslan á að sýna frumsamin verk eftir eigin höfunda. Á þessum fjórum áratugum hafa orðið til hátt í 50 leikrit í fullri lengd og vel yfir 200 stuttverk (sem flest hafa ratað á svið í einni eða annarri mynd).

Fjölmörg leikrit Hugleiks hafa verið sett upp af öðrum leikfélögum og hugleikskir höfundar hafa látið að sér kveða í atvinnuleikhúsum, barnaefni fyrir sjónvarp, áramótaskaupum og á ótal fleiri sviðum.

Stærstur hluti leikrita Hugleiks er með lifandi tónlistarflutningi og býr félagið yfir hópi hæfileikaríkra tónlistarmanna og lagahöfunda – en við viljum alltaf kynnast fleiri.

Öflugt höfundastarf

Í Hugleik starfar höfundahópur sem reynir að styðja við bæði nýja og reyndari höfunda. Flestir höfunda Hugleiks hafa fyrst spreytt sig á því að skrifa stuttverk, sem geta verið af margvíslegu tagi og á dæmigerðu leikári setur Hugleikur upp eina eða fleiri stuttverkadagskrár – þannig geta nýir höfundar óhikað dýft sköpunartánni í þá laug sem þeim finnst henta. Auk þess eru leikrit í fullri lengd oft skrifuð í samvinnu fleiri höfunda.

Fólkið bak við tjöldin

Þau eru óteljandi handtökin sem áhorfendur ekki sjá – og víðar sýnd tilþrif en á leiksviðinu.

Félagsgjöld

Árgjald félaga á yfirstandandi leikári eru 5.000 kr. og má leggja inn á reikning nr.
0327-26-009292 , kt. 691184-0729 og senda tilkynningu þess efnis á hugleikur@hugleikur.is

Innifalið í árgjaldi eru afsláttarkjör á sýningar félagsins.