Hugleikur heldur jól - aftur

10. desember 2023 frumsýndum við Jólaævintýri Hugleiks í glænýrri uppsetningu. Hugleikur setti verkið fyrst á svið fyrir 18 árum og ákvað að endurtaka leikinn vegna fjölda áskorana.

Hátt í 40 einstaklingar tóku þátt í uppfærslunni í þetta sinn.

Handritið er byggt á A Christmas Carol eftir Charles Dickens en að þessu sinni er sögusviðið íslensk sveit til forna.

Höfundar verksins eru Sigríður Lára Sigurjónsdóttir, Sigrún Óskarsdóttir, Snæbjörn Ragnarsson og Þorgeir Tryggvason. Gunnar Björn Guðmundsson leikstýrði.

Þetta gekk svona aldeilis glimrandi, þótt æfingatímabilið hafi verið langt og allra handa pestir skipst á um atast í leikflokknum líkt og draugarnir í Ebenezer. Reyndar nefndi leikstjórinn í skálarræðu á frumsýningardaginn að trúlega hefði hópurinn fyrst náð að mæta allur á æfingu á þá síðustu fyrir generalprufu.

Sýningarnar fjórar reyndust svo hverri annarri kröftugri og lokasýningin mögulega best þeirra allra. Það að sýna tvisvar báða dagana reyndist ekkert lýjandi þegar til kom – nema síður sé.

Það fór afskaplega vel um okkur í Gamla bíói, enda hefur það lengi verið á stefnuskrá félagsins að kaupa það húsnæði einhvern daginn…

Teiknað kynningarefni: Lóa Hjálmtýsdóttir

Ljósmyndir frá sýningunni og baksviðs: Þórunn Guðmundsdóttir

Tónlistin krufin

Lestu hvað Þorgeir Tryggvason hafði að segja um tónlistina í verkinu í aðdraganda frumsýningar.

  • Hluti höfundahóps Hugleiks ásamt félögum í stjórn

    Höfundarnir

    Höfundar verksins eru Sigríður Lára Sigurjónsdóttir, Sigrún Óskarsdóttir, Snæbjörn Ragnarsson og Þorgeir Tryggvason. Þeir tveir síðast nefndu eru einnig höfundar tónlistar og Ljótir hálfvitar.

    Á myndinni er höfundahópurinn ásamt formanni Hugleiks, Sesselju Traustadóttur og gjaldkeranum Margréti Þorvaldsdóttur. Höfundur sögunnar, Charles Dickens, komst ekki á fundinn sökum dauða.

  • Fyrri uppfærsla

    Jólaævintýri Hugleiks var sett upp í Tjarnarbíói árið 2005 og hefur síðan þá verið umtalað innan félagsins.

    Verkið er byggt á Christmas Carol eftir Charles Dickens en í þessari útgáfu gerist verkið í íslensku bændasamfélagi. Leikfélagið setti verkið fyrst á svið fyrir 18 árum og ætlar nú að endurtaka leikinn vegna fjölda áskorana. Þetta verk á sérstakan sess í hjörtum Hugleikara og margir hverjir geta ekki hugsað sér jólin án þess að spila tónlistina úr sýningunni.

  • Leikstjórinn

    Leikstjóri sýningarinnar er hinn bráðfyndni Gunnar Björn Guðmundsson sem hefur leikstýrt meðal annars fjölda Áramótaskaupa, Ömmu Hófí og Astrópíu.

    Gunnar Björn hefur einnig leikstýrt fjölda áhugaleiksýninga um land allt en vann í fyrsta sinn með Hugleik vorið 2023 þegar hann leikstýrði nýjasta verki félagsins, Húsfélaginu.

Frá uppsetningu á Jólaævintýri Hugleiks í Tjarnarbíói 2005

Kynslóðir Tomma litla

Nanna Vilhelmsdóttir í hlutverki Tomma í Jólaævintýri Hugleiks 2005

Þegar Hugleikur setti upp Jólaævintýrið árið 2005 fór Nanna Vilhelmsdóttir með hlutverk Tomma litla. Það sem kannski fáir vissu var að dóttir hennar, Úlfhildur Jónsdóttir, fór með afskaplega lítið hlutverk í þeirri uppfærslu og er til staðar á meðfylgjandi myndum úr fyrri uppsetningu - að vísu falin í móðurkviði. Þar sem hinn veiklulegi Tommi átti ekki að vera sérstaklega pattaralegur og Úlfhildur varð æ meira áberandi var hennar getið á heimasíðu Hugleiks sem "Sullur Tomma". Nú 18 árum síðar hefur hún tekið við hlutverki móður sinnar sem Tommi litli - sullslaus í þetta sinn.

Úlfhildur Jónsdóttir og Nanna Vilhelmsdóttir

Kapitóla Karlsdóttir

Myndband frá árinu 2005 sem tekið er við upptökur tónlistar úr upprunalegri uppsetningu Jólaævintýrisins.

Lag og texti: Snæbjörn Ragnarsson
Flutningur: Anna Bergljót Thorarensen
Myndbandsgerð: Guðmundur Erlingsson