Tónlistin úr Jólaævintýrinu krufin

Í aðdraganda frumsýningarinnar rifjaði Þorgeir Tryggvason, annar höfunda tónlistar og texta, upp tónlistina úr sýningunni 2005 í nokkrum innleggjum á Facebook. Hér eru þau dregin saman, myndskreytt með myndum frá 2023 uppfærslunni.

Ásamt viðeigandi tenglum á Spotify auðvitað.


Ljósmyndirnar voru flestar teknar af Þórunni Guðmundsdóttur, með nokkrum viðbótum frá öðrum.

I

Nú eru sjö dagar í frumsýningu á Jólaævintýri Hugleiks. Tónlistin úr verkinu rataði á helstu streymisveitur mannkyns 1. desember sl. Fjórtán lög. Þetta getur ekki verið tilviljun, heldur ákall um að ég taki þau, tvö á dag, og fylgi þeim úr hlaði hér á samfélagsmiðli þjóðarinnar.

Við byrjum á tveimur lögum sem leggja línurnar. Setja sviðið og stilla upp spennugjöfunum. Tvö lög að gera sama gagnið? gætu menn spurt. Er það ekki einu of mikið?

Nei, þetta er alveg hæfilegt. Ekki síst af því þetta eru gerólíkar smíðar eftir ákaflega ólíka höfunda.

Ég samdi UPPHAFSLAGIÐ, sem lýsir muninum á eðlilegum jólaundirbúningi og tilhlökkun, og því hvernig stemmingin er á Grafarbakka undir harðstjórn Ebenesers óðalsbónda. Þjóðlagaleg og „leikhúsleg“ stemma, dúr og moll skapa andstæðurnar í andrúmsloftinu og svo er vitnað í allskyns jólalög. Ég elska að vitna. Eins og mun koma enn betur í ljós á fimmtudaginn, þegar hitt lagið sem ég lagði í púkkið verður kynnt.

https://open.spotify.com/track/1jlwS7eQYKrYbh30XiFP7J...

Já, hitt. Snæbjörn var mun iðnari við kolann í laga- og textasmíðum í þessu verki. Hans fyrsta lag, JÓLARIFRILDI, brestur út úr stóru hópatriði þar sem miklir jólaunnendur hafa tekið hús á óðalsbóndanum geðilla. Friðrik frændi hans með jólakveðjur og ungmennafélagið Fjárkláði með útrétta beiningarhönd. Þetta endar eins og við mátti búast, í mikilli sennu um ágæti þessarar ágætu hátíðar. Þetta er helvíti hresst rokklag með smá ungmennafélagskórsuppbrotum.

https://open.spotify.com/track/1VMgiStBF4qt8SqgHqbCHD...

II

Gróflega má skipta söngleikjalögum í hreyfla og stoppara. Hreyflar ýta framvindunni áfram, eða veita allavega einhverjar upplýsingar Stopparar eru þarna bara til að vera skemmtilegir, eða fyrir leikarana til að glansa. Í mesta lagi til að dýpka skilning okkar eða meðlíðan með persónunni.

VÍSUR RAGNHEIÐAR eru hreyfill. í þessari aðlögun sögunnar er Jacob Marley orðinn að skaðræðiskvendinu Ragnheiði, sem rifjar hér upp fyrir Ebeneseri aðdraganda þess hve illa er komið fyrir henni í framhaldslífinu.

https://open.spotify.com/track/7vHGqAHQqygMxv99pIwtnN...

Í VIKIVAKA erum við síðan komin inn í fortíð Skröggs, og fylgjumst með jólahaldi á prestsetrinu þar sem Ebeneser er í læri. Stoppari. Bæði lögin með viðeigandi þjóðlagakeim.

PS:Danskvæðabragarhættir eru dásamlegir.

https://open.spotify.com/track/2QefXLcGrdNMo8acrV7nZx...

III

Er SAMBANDSSLIT snjallasta lagið í verkinu? Það virkar frekar sakleysislega, svona ástardramasöngur sem verður að vera í öllum almennilegum söngleikjum. En það leynir á sér.

Ég held að Bibbi hafi ekki verið búinn að stúdera Stephen Sondheim að ráði þegar hann samdi það, en andi kallsins svífur hér yfir vötnum. Bæði í viðsnúningnum á rómantíkinni, en ekki síður í því hvernig tvær manneskjur muna liðna atburði á ólíkan hátt. Og svo þriðja elementið: vitnið að samtalinu, Ebenezer eldri, sem bætist í kórinn á nokkrum hápunktum. Brilljant. Remember úr A little night music og Someone in a tree í Pacific Overtures koma upp í hugann. Nú eða How I Saved Roosevelt úr Assassins.

https://open.spotify.com/track/14nELLm8JZQWe4DVSPyirj...

Önnur góð hugmynd var að láta draugana þrjá syngjast á við Ebeneser í lok heimsókna sinna á Grafarbakka.. Tékka aðeins á hvað hann hefði LÆRT á ferðum sínum. Það var líka góð hugmynd að þetta væru þrír nafntogaðir íslenskir draugar en hún er ekki tónlistarlegs eðlis, svo við montum okkur af því annarsstaðar.

https://open.spotify.com/track/7eWzHdIdkvFhhn0lsgcdwm...

IV

Í þessum tveimur lögum erum við stödd í jólaveislu Friðriks, hins fátæka frænda Ebenesers, og hans fákæmu frúar, Kapítólu. Fullt af effum og mikið fjör. Fúmm fúmm fúmm!

Annað þeirra er hitt lagið mitt, og er eiginlega þrjú lög, svona svo ég reyni aðeins að þenja mig út. JÓLAÓRATÓRÍAN er sprottin úr fornhugleikskri hefð; að láta persónurnar sviðsetja nokkurskonar öróperu um sögulegt efni, Njálu í Fáfnismönnum og Fjallaeyvind í Embættismannahvörfunum svo tvö séu nefnd. Hér er það UMF Fjárkláði sem sviðsetur fæðingu frelsarans á sinn bernska, einhver myndu segja hugleikska, hátt. Þarna var ég klárlega búinn að hlusta á Messías (það er resitatív!), en ekki síður á Einar Bárðarson sem gaf Fjárkláða góðfúslegt leyfi til að nota brot úr hans víðförlasta verki.

https://open.spotify.com/track/01Xy9y3NLmHUXdMxCkqSFV...

SÖNGUR KAPÍTÓLU er mikill eyrnaormur, og verðugt tilbrigði við þemað í Wonderful World og Mayor of Simpleton. En svo er það auðvitað mest Meta af öllum lögunum, og þar með hugleikskast þeirra allra. Vel gert hjá höfundinum að láta þáverandi kærustu syngja „það er allt í lagi, ég á svo góðan mann, og ég elska bara hann“, trekk oní hvað.

https://open.spotify.com/track/5amSvoowS6v34uFXeipjCN...

V

Við erum enn í landi nútíðarjóla þegar mitt uppáhaldslag hljómar: manifesto fyrirmyndarfjölskyldunnar sem skrimtir undir ógnarstjórn Ebenesers. Engin kaldhæðni, bara kærleikur. FJÖLSKYLDAN OG JÓLIN er verðugur stoppari. Frábært lag hjá Bibba.

https://open.spotify.com/track/2V7l2jyhrZSkIGQsQX6Vhw...

Tilbrigði Sólveigar nútímadraugs við LÆRDÓMSLAGIÐ er sveiflukennt og smart, eins og hún. Og karlinn aðeins að linast? Ekki nóg samt. Sjáum hvað gerist næst.

https://open.spotify.com/track/7JMn5bMl5ff9gkKEYDx9Tx...

VI

VIð erum kominn til framtíðarinnar undir leiðsögn hins nýdauða ástarviðfangs Sólveigar. Eða einnar mögulegrar framtíðar: við erum í landi skammtafræðinnar. Myrkur og kuldi og meinlegir skuggar. Guð kastar teningum. Í fjarska mjálmar köttur milli heims og helju.

Tveir DAUÐASÖNGVAR. Aftur er þjóðlagablær, að þessu sinni eins og Shane heitinn hafi strömmað með tónsmiðnum með eitthvað kalt og brúnt á kantinum. Aftur er unnið með hina einföldu dúr/moll tvennu til að tjá tvær mismunandi stemmingar. Þetta þarf ekki að vera flókið, sérstaklega ekki á sviði.

https://open.spotify.com/track/59FZwxKWcXSBkyvbSVhjO5...

https://open.spotify.com/track/2SQmSjMaK4Igx6GG2dIdlx...

VII

Og sjá: upp er runninn frumsýningardagur! Og hver rís upp af því tilefni, fer í sparifötin og mátar góða skapið í fyrsta sinn síðan hann og Bella voru að slá sér upp á prestsetrinu í denn? Essaebbi?

Fyrst þarf hann að ná botninum. Og þá þarf hann almennilegan þerapista, sem veit að hann á að hlusta en ekki blaðra bara sjálfur og leggja einhverjar LÍFSREGLUR. Séra Oddur er með próf í sálgæslu þó hann hafi klúðrað þessu með Sólveigu (það er líka alltaf bank í ofnunum heima hjá pípurum). Svo er rafgítarsóló. Allt er gott.

https://open.spotify.com/track/6O1Pq3jbWcrmGt1bNX88Oz...

Allt fer vel, og það er svo sannarlega tíundað í LOKASÖNGNUM. Besti lokasöngur Hugleikssögunnar? Vel mögulega. Og ef textinn væri ekki upptekinn við að hnýta plottenda væri lagið mögulega komið á kortið sem jólalag þjóðarinnar. Allavega hef ég aldrei hitt neinn sem hefur getað hætt að syngja viðlagið. Og skammast sín ekki fyrir neitt.

https://open.spotify.com/track/5h78tZ8cHtrY3i7wUUeyWE...